8. mars

Ávörp MFÍK á 8. mars

2014 – Fyrir friði og jafnrétti

2012 – Mennska

2011 – Tímamót

2010 – Framlag okkar til friðvænlegri heims

2009 – Breytt samfélag – aukinn jöfnuð

2008 – Friðaruppeldi

2007 – Jöfnuður – jafnrétti – jafnræði

2006 – ávarp

2005 – Friður og framtíð

2004 – Friður er forsenda jafnréttis

Um 8. mars

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti.

Alþjóðadagur kvenna er ekki enn ein útgáfan af konu- eða mæðradeginu.
Það er lítið um blóm á þessum deginema ef minnst væri á baráttu
verkakvenna sem kennd var við „brauð og rósir“.
Víða um heim halda konur upp á 8.mars, þrátt fyrir ólík tungumál
og menningu. Óháð efnahagslegum og pólitískum bakgrunni sameinast konur
þann dag í baráttunni fyrir friði og jafnrétti og minnast aldagamallar
sögu venjulegra kvenna og baráttu þeirra fyrir betri kjörum og bættu mannlífi.

Sjálf hugmyndin að sérstökum barráttudegi kvenna fæddist við upphaf tuttugustu aldar á átakatímum í kjölfar iðnvæðingar á vesturlöndum. Fólksfjölgun og stéttaátök fæddu af sér róttækar hugmyndir um bætt kjör og víða var barist fyrir kosningarétti kvenna. Það var þýsk kvenréttindakona, Clara Zetkin, sem stakk upp á alþjóðlegum baráttudegi kvenna á þingi Alþjóðasambands sósíalískra kvenna, sem haldið var í Danmörku árið 1910. Þar hittust um 130 konur frá 16 löndum og samþykktu að efna til alþjóðlegs baráttudags kvenna. Dagsetningin var ekki fastsett, en ákveðið að velja sunnudag þar sem það var eini frídagur verkakvenna í þá daga. Dagsetningar voru því nokkuð á reiki fyrstu árin en þó ætíð í marsmánuði. Fyrstu árin voru baráttumál kvennadagsins kosningaréttur kvenna og samstaða verkakvenna.
Alþjóðlegur baráttudagur kvenna var fyrst haldinn hátíðlegur meðal sósíalískra kvenna í Danmörku, Þýskalandi, Austurríki og Sviss þann 19. mars árið 1911. Svíþjóð, Frakkland og Holland bættust síðan við árið 1912 og árið 1913 fylgdu Tékkóslóvakía og Rússland í kjölfarið.

Með tímanum var misjafnt eftir löndum hvort baráttudags kvenna var minnst. Í Þýskalandi nasismans voru öll samtök kvenna bönnuð og 8.mars gerður að mæðradegi og heimstyrjaldirnar settu strik í reikning samtakamáttar verkafólks. Upp úr seinni heimstyrjöldinni eða árið 1945 var Alþjóðasamband lýðræðissinnaðra kvenna stofnað í París og dagurinn 8. mars festur í sessi. En kalda stríðið skipti fólki, bæði körlum og konum í fylkingar og lengi var dagsins aðeins minnst meðal sósíalískra kvenna. Það var ekki fyrr en með nýju kvennahreyfingunni á 7.og 8. áratugnum sem hefðin fyrir 8. mars sem baráttudegi kvenna varð almenn á ný.

Árið 1975 lýstu Sameinuðu þjóðirnar því yfir að 8. mars skyldi vera Alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti. Samvinna kvenna um víða veröld hefur styrkst með alþjóðlegum ráðstefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna sem hafa að markmiði að samþætta baráttuna fyrir auknum réttindum kvenna, gegn styrjöldum og ójöfnuði.

Á Íslandi var dagsins líklega fyrst minnst á árshátíð Kvenfélags Sósíalistaflokksins 8.mars 1948. Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna (MFÍK), sem eru aðildarfélag Alþjóðasambands lýðræðissinnaðra kvenna hafa minnst dagsins frá stofnun samtakanna árið 1951. Í gegnum árin hafa fjölmargir landskunnir einstaklingar komið fram á samkomum MFÍK á þessum degi. Frá árinu 1984 hefur fjöldi samtaka og stéttarfélaga gengið til liðs við Menningar- og friðarsamtökin um 8.mars. Ár hvert halda þau opinn baráttufund, með skeleggri umfjöllun um þau innlend og erlend mál sem hæst ber hverju sinni og snerta jafnréttis- og friðarmál og hagi kvenna og barna. Síðastliðin ár hafa á þriðja tug félaga og samtaka, sem hafa fjölda kvenna innan sinna vébanda, staðið að sameiginlegri dagskrá 8. mars. Hægt er að fullyrða að þessir kraftmiklu fundir hafi vakið töluverða athygli. Þar hefur verið ýtt af stað umræðu út í samfélagið og ákveðin skilaboð send til stjórnvalda.

Yfirskriftir fundanna nokkur undanfarin ár:

2000 Gegn ofbeldi – gegn stríði. (Ráðhús Reykjavíkur)
2001 Gegn fordómum. (Kaffileikhús í Hlaðvarpanum)
2002 Áhrif hnattvæðingar á stöðu kvenna. (Salur BSRB, Grettisgötu 89)
2003 Heyrist rödd þín ? – umfjöllun um lýðræði (Miðbæjarskólinn)
2004 Fyrir friði og jafnrétti. (Salur BSRB, Grettisgötu 89)
2007 Virkjum kraft kvenna (Ráðhús Reykjavíkur)
2008 Friður og menning (Ráðhús Reykjavíkur)
2009 Breytt samfélag – aukinn jöfnuður! (Ráðhús Reykjavíkur)
2010 Við getum betur! (Ráðhús Reykjavíkur)
2011 8. mars í hundrað ár (Ráðhús Reykjavíkur)
2012 Vorið kallar (Iðnó)
2013 Nýjar leiðir á traustum grunni (Iðnó)

2014 Alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti (Iðnó)

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: