Menn með Mönnum
júní 10, 2014 Færðu inn athugasemd
Menn með mönnum
Eftir Guðrúnu Hannesdóttur
Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. desember 2008
Eftir sviptingar síðustu vikna er mér farið sem fleirum að finnast raunveruleikinn hafa sogast burtu – sogast inn í einhverja óræða vídd og óvíst að hann sjáist meir.Því núlifandi Íslendingar, sem hafa lifað í besta hugsanlega heimi, eru sennilega síst til þess fallnir að opna augu sín fyrir því að þeir standa ekki lengur í skjóli heldur á berangri heimsins þar sem allra veðra er von. Til skamms tíma lifðum við í þeirri trú að gjöfult landið, nálægur faðmur frænda og vina og umfram allt sterk sjálfsmynd þjóðarinnar myndi ekki bregðast hvað sem á dyndi. Skilaði okkur enda allvel áleiðis lengi vel. Sjálfsmynd þjóðar þolir ef til vill ekki mjög nána skoðun en, þrátt fyrir heilaspuna og bláþræði á köflum, er hún lífsnauðsynlegt haldreipi. Án hennar er voðinn vís. Við fengum í góða vöggugjöf ást á landinu, stolt yfir vopnlausu þjóðfélagi jöfnuðar og heiðarlegrar vinnugleði. En fyrir nokkrum árum var hafist handa við að vinna hryðjuverk á téðri sjálfsmynd og þar voru að verki menn úr okkar eigin röðum. Fingraförin eru ekki ýkja mörg, menn eru fljótir að telja þau. Við vorum gerð samsek um innrás á blásaklausa þjóð hinum megin á hnettinum með hörmulegum afleiðingum, hjartað var sprengt í manni með hervirkjum á náttúru landsins og nú síðast erum við svipt sjálfsvirðingunni, svipt því að teljast sjálfbjarga og heiðvirð þjóð til jafns við aðrar þjóðir og jafnvel veitendur til þeirra sem minna mega sín. Ekkert í ytri aðstæðum þjóðarinnar kallaði á þessar aðgerðir og í engum þessara tilfella var þjóðin spurð hvort hún kysi sér hlutverk níðinga, umhverfisfanta og ójafnaðarmanna í fjármálum. En þetta er myndin sem við sjáum í speglinum í dag, þetta er skikkjan sem við drögnumst með
á herðunum út á berangurinn, út á meðal annarra þjóða.
Er þetta það yfirbragð sem við ætlum eftirkomandi Íslendingum að bera umókomna tíð? Seinþreytt til vandræða höfum við horft of lengi með vantrú og magnleysi á verk yfirvalda, glámskyggn með köflum á eigin auðlegð og gæfu eins og hvert annað heimaalið barn. Nú þegar augu okkar hafa opnast skulum við hafa manndóm til að hefjast handa við að leiðrétta þessa ámátlegu mynd, greina orsakir hennar og upphafsmenn. Stöndum við skuldbindingar okkar gagnvart öðrum, ekki síst komandi kynslóðum. Við erum gæfusmiðir okkar lands, hvert á sinn hátt.
Efniviðurinn er sem fyrr nógur og nærtækur.
Guðrún Hannesdóttir