Lög MFÍK
1. gr. Félagið heitir Menningar- og friðarsamtökin MFÍK og er heimili þess og varnarþing í Reykjavík.
2. gr. Samtökin eru deild í Alþjóðasambandi lýðræðissinnaðra kvenna. Samtökin eru óháð stjórnmálaflokkum og hlutlaus um trúmál.
3. gr. Markmið samtakanna er:
alheimsfriður og afvopnun
að fest verði í stjórnarskrá að Ísland sé herlaust og að þjóðin fari aldrei með ófriði gegn öðrum þjóðum
frelsi smáríkja gegn allri ágengni stórvelda
að Ísland standi utan allra hernaðarbandalaga
að loft- og landhelgi Íslands verði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði
að hernaðarumsvif verði aldrei heimiluð innan loft- og landhelgi landsins
að efla samskipti og samvinnu kvenna í þágu friðar, mannréttinda og menningar
4. gr. Markmiði sínu hyggjast samtökin ná með samstarfi við önnur félagasamtök, á Íslandi og erlendis, með fundahöldum og fræðslustarfsemi.
5. gr. Félagar geta orðið: a) allar konur b) menningar- og friðarsamtök kvenna
Nöfn nýrra félaga skulu lesin upp á aðalfundi.
6. gr. Árgjald skal ákveðið á aðalfundi. Undanþegnir félagsgjöldum eru heiðursfélagar og félagar sem dvelja erlendis.
7. grein Allar félagskonur eru kjörgengar til stjórnarstarfa. Stjórn samtakanna skipa: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri, þrír meðstjórnendur og tveir varamenn. Formaður og varaformaður eru kosnir sérstaklega til tveggja ára og skulu kosnir sitt árið hvor. Fari svo að formaður falli frá, flytji af landi eða hafi önnur marktæk forföll, þá tekur varaformaður við starfi formanns. Verði varaformaður fyrir forföllum, svo sem fyrr segir um formann, þá tekur fyrsti meðstjórnandi sæti varaformanns og gildir það einnig ef varaformaður hefur þurft að taka sæti formanns í forföllum hans. Gæta ber þess, að kosning formanns fari fram annað hvort ár og kosning varaformanns hitt árið og gildir sú regla þó sætaskipti hafi orðið á kjörtímabilinu. Sjö konur skal kjósa í stjórn samtakanna árlega og skipta þær með sér verkum eins og fyrr segir.
8. gr. Í fastanefndir, sem samtökin kunna að hafa í starfi, skal kjósa til eins árs í senn á aðalfundi. Æskilegt er að haga kosningum þannig að aldrei láti allar nefndarkonur af störfum samtímis, en einnig að endurnýjun fari fram til þess að sem flestar konur taki þátt í trúnaðarstörfum.
9. gr. Æski samtök eða félög aðildar að Menningar- og friðarsamtökunum MFÍK skal það tekið fyrir á stjórnarfundi og síðan lagt fyrir félagsfund.
10. gr. Aðalfund skal halda í janúar eða febrúar ár hvert og skal boða til hans skriflega með minnst viku fyrirvara. Á aðalfundi skal kjósa í stjórn samtakanna og tvo skoðunarmenn reikninga og einn til vara. Á aðalfundi gefur stjórnin skýrslu um starfið á liðnu ári. Yfirfarnir reikningar samtakanna skulu lagðir fram til samþykktar á aðalfundi. Almenna félagsfundi skal að jafnaði halda tvisvar yfir vetrarmánuðina. Um aðra fundi fer eftir þörfum að áliti stjórnar. Unnið skal í starfshópum samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar.
11. gr. Stjórn félagsins er heimilt að tilnefna félagskonu sem heiðursfélaga og skal henni þá afhent heiðursskjal.
12. gr. Breytingar á lögum þessum má aðeins gera á aðalfundi og hafi þær áður verið ræddar á einum félagsfundi. Lagabreytingar eru gildandi ef 3/4 fundarkvenna greiða þeim atkvæði. Ef tillaga er gerð um að leggja samtökin niður, jafngildir það lagabreytingu og skal farið með hana sem slíka. Þó skulu samtökin ekki lögð niður fyrr en stjórnin hefur komið sér saman um hvar varðveita skuli skjala- og bréfasafn félagsins og hvernig ráðstafa skuli eignum þess.
Síðasta endurskoðun 15.02.2011