Menn með Mönnum

Menn með mönnum

Eftir Guðrúnu Hannesdóttur

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. desember 2008

Eftir sviptingar síðustu vikna er mér farið sem fleirum að finnast raunveruleikinn hafa sogast burtu – sogast inn í einhverja óræða vídd og óvíst að hann sjáist meir.Því núlifandi Íslendingar, sem hafa lifað í besta hugsanlega heimi, eru sennilega síst til þess fallnir að opna augu sín fyrir því að þeir standa ekki lengur í skjóli heldur á berangri heimsins þar sem allra veðra er von. Til skamms tíma lifðum við í þeirri trú að gjöfult landið, nálægur faðmur frænda og vina og umfram allt sterk sjálfsmynd þjóðarinnar myndi ekki bregðast hvað sem á dyndi. Skilaði okkur enda allvel áleiðis lengi vel. Sjálfsmynd þjóðar þolir ef til vill ekki mjög nána skoðun en, þrátt fyrir heilaspuna og bláþræði á köflum, er hún lífsnauðsynlegt haldreipi. Án hennar er voðinn vís. Við fengum í góða vöggugjöf ást á landinu, stolt yfir vopnlausu þjóðfélagi jöfnuðar og heiðarlegrar vinnugleði. En fyrir nokkrum árum var hafist handa við að vinna hryðjuverk á téðri sjálfsmynd og þar voru að verki menn úr okkar eigin röðum. Fingraförin eru ekki ýkja mörg, menn eru fljótir að telja þau. Við vorum gerð samsek um innrás á blásaklausa þjóð hinum megin á hnettinum með hörmulegum afleiðingum, hjartað var sprengt í manni með hervirkjum á náttúru landsins og nú síðast erum við svipt sjálfsvirðingunni, svipt því að teljast sjálfbjarga og heiðvirð þjóð til jafns við aðrar þjóðir og jafnvel veitendur til þeirra sem minna mega sín. Ekkert í ytri aðstæðum þjóðarinnar kallaði á þessar aðgerðir og í engum þessara tilfella var þjóðin spurð hvort hún kysi sér hlutverk níðinga, umhverfisfanta og ójafnaðarmanna í fjármálum. En þetta er myndin sem við sjáum í speglinum í dag, þetta er skikkjan sem við drögnumst með
á herðunum út á berangurinn, út á meðal annarra þjóða.

Er þetta það yfirbragð sem við ætlum eftirkomandi Íslendingum að bera umókomna tíð? Seinþreytt til vandræða höfum við horft of lengi með vantrú og magnleysi á verk yfirvalda, glámskyggn með köflum á eigin auðlegð og gæfu eins og hvert annað heimaalið barn. Nú þegar augu okkar hafa opnast skulum við hafa manndóm til að hefjast handa við að leiðrétta þessa ámátlegu mynd, greina orsakir hennar og upphafsmenn. Stöndum við skuldbindingar okkar gagnvart öðrum, ekki síst komandi kynslóðum. Við erum gæfusmiðir okkar lands, hvert á sinn hátt.
Efniviðurinn er sem fyrr nógur og nærtækur.

Guðrún Hannesdóttir

 

Menn með mönnum eftir Guðrúnu Hannesdóttur

Vatn fyrir alla

Undirrituð samtök vilja með sameiginlegri yfirlýsingu þessari vekja athygli ríkisstjórnar,
sveitarstjórna, stofnana, fyrirtækja og almennings á mikilvægi og sérstöðu vatns fyrir
land, þjóð og lífríki. Þótt enginn vatnsskortur sé á Íslandi þá er staðan önnur víðast hvar í
heiminum. Gnótt vatns gefur því ekki tilefni til skeytingarleysis af okkar hálfu. Þvert á
móti ber okkur að færa lagaumgjörð um vatn í þann búning að hún tryggi rétta
forgangsröðun varðandi vatnsvernd og nýtingu og geti verið öðrum þjóðum til
fyrirmyndar. Hugsa verður til framtíðar og hafa almannahagsmuni og náttúruvernd að
leiðarljósi.

Vatn er takmörkuð auðlind og almannagæði sem er undirstaða alls lífs og heilbrigðis.
Vatn er frábrugðið öðrum efnum að því leyti að það finnst náttúrulega í föstu, fljótandi og
loftkenndu formi og er aldrei kyrrt á einum stað eða einu eignarlandi heldur á stöðugri
hringrás um heiminn.

Undirrituð samtök telja að aðgangur að vatni sé grundvallarmannréttindi, eins og kveðið
er á um í samþykktum Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur undirgengist. Sérhver
maður á því rétt á aðgengi að hreinu drykkjarvatni og vatni til hreinlætis og
heimilishalds.

Líta ber á vatn sem félagsleg, menningarleg og vistfræðileg gæði sem ekki má fara með
eins og hverja aðra verslunarvöru.

Nýting vatns skal vera sjálfbær og aðgengi að því tryggt með lögum fyrir núlifandi
kynslóð og kynslóðir framtíðarinnar. Það er skylda stjórnvalda að tryggja þegnum sínum
þennan rétt án mismununar.

Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja verndun vatns sem náttúruverðmæta sem og að
tryggja hollustu og dreifingu vatns til allra þjóðfélagsþegna með fjárfestingu í
mannvirkjum og mengunarvörnum. Vatnsveitur verði því reknar á félagslegum grunni,
taki mið af almannahagsmunum og tryggi rétt einstaklinga til nægilegs hreins vatns til
drykkjar og hreinlætis á viðráðanlegu verði. Það er jafnframt hlutverk stjórnvalda að
tryggja að við nýtingu vatns verði öðrum náttúruverðmætum ekki spillt.

Stjórnvöldum ber að tryggja almenningi aðgengi að öllum upplýsingum er varða verndun
og nýtingu vatns og stuðla að aukinni virkni almennings og meðvitund um mikilvægi
vatns, náttúru og réttrar umgengni við landið.

Vegna mikilvægis vatns fyrir íslenska þjóð og lífríki landsins telja undirrituð samtök
nauðsynlegt að fest verði í stjórnarskrá Íslands ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda
og almennings hvað varðar réttindi, verndun og nýtingu vatns. Lög og reglugerðir um
nýtingu vatns taki því mið af ákvæðum sem viðurkenna rétt einstaklinga til vatns sem og
lögum er varða verndun vatns og náttúru.

Til að tryggja skilvirka verndun og nýtingu vatns ber stjórnvöldum að skipuleggja
stjórnsýslu þannig að eðlilegt jafnvægi sé á milli þessara þátta og réttar einstaklinga til
aðgengis að vatni.

Vatn fyrir alla