Hvað viljum við?

Bókmenntakynning MFÍK
13. desember 2008 

Félagið okkar var stofnað 1951 í Reykjavík í anda Alþjóðarsambands lýðræðissinnaðra kvenna – en A.L.K. varð til 1945 í París. Þar voru samankomnar konur frá 41 þjóðlandi sem allar höfðu verið í fangabúðum nasista í síðari heimstyrjöldinni. Í fangabúðunum strengdu þær þess heit
að leggja sitt að mörkum til heimsfriðarins, kæmust þær lifandi úr búðunum.

Kjarninn í stefnu og starfi M.F.Í.K. er friður.

  • Við viljum frið.
  • Við viljum afvopnun.
  • Við viljum að öll kjarnorkuvopn verði eyðilögð og bann lagt við framleiðslu efnavopna og sýklahernað.
  • Við viljum að konur sem karlar beiti samtakamætti sínum til að vinna að friði og stuðli að samstarfi allra þeir hópa og einstaklinga sem vilja taka upp baráttu fyrir friði og afvopnun.

Öll erum við ábyrg fyrir því hvort þjóðfélagið sem við tökum þátt í að móta stefnir að stríði eða friði. Gífurlegum fjármunum er varið til vígbúnaðar meðan stór hluti mannkyns sveltur. Vígbúnaðarkapphlaupið magnast þó þau vopn sem þegar eru til nægi margfaldlega
til að útrýma mannkyninu. Þúsundir vísindamanna nota hugvit sitt og krafta til að fullkomna vopn sem geta eytt öllu lífi á þessari jörð. Þetta er ógnun sem mannkynið stendur andspænis og hún er verk okkar mannanna sjálfra. Við verðum því sjálf að snúa þessari þróun við. Við verðum að taka höndum saman konur sem karlar og vinna markvisst að því að ókomnar kynslóðir fái að byggja þessa jörð. Okkur er ljós sá styrkur sem felst í samtökum fólks og því skorum við á alla að hugleiða þessi mál og taka þau til umræðu og umfjöllunar hvar og hvenær sem því verður viðkomið.

Margrét Pálína Guðmundsdóttir

Hvað viljum við

Ályktun frá fundi 8. mars 2007

Opinn fundur haldinn í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur á Alþjóðlegum
baráttudegi kvenna fyrir friði og jafnrétti sendir frá sér eftirfarandi ályktun:

Í réttlátu þjóðfélagi njóta allir þjóðfélagsþegnar jafnra tækifæra og eiga
jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu, menntunar og þátttöku í samfélaginu.
Í réttlátu samfélagi er varinn réttur þeirra sem ekki þekkja réttindi sín og
tekið tillit til sjónarmiða þeirra hópa, sem erfiðast eiga.

Samdráttur í ríkisafskiptum og einkavæðing nauðsynlegrar þjónustu kemur hart niður á
konum sem bera hita og þunga af því misrétti sem er hér á landi. Þær eru margar hverjar
tekjulægstar en hafa þá ábyrgð að sjá um að framfæra fjölskyldum.

Við hvetjum stjórnvöld til að setja mannsæmandi lífskjör fólks ofar
fjármagnshyggju, varðveita velferðarkerfi og berjast gegn mansali og
vinnuþrælkun.

Við hvetjum til samstöðu gegn öllu ofbeldi, líkamlegu, andlegu og
kynferðislegu.

Við krefjumst raunhæfra aðgerða til að breyta skiptingu auðæfa heims og
stuðla að bættum hag kvenna um allan heim.

Ályktun frá fundi 8. mars 2007

TIL UMHUGSUNAR: KAUP HANDA BÖRNUM FYRIR JÓL.

Menningar- og friðarsamtökin MFÍK skora á foreldra og forráðamenn, ömmur, afa,
frænkur og frændur og aðra þá sem kaupa gjafir handa börnum og ungmennum, að vera
meðvituð um að það er á ábyrgð fullorðinna hvernig heimur snýr að börnum. Börn eiga
að fá að vera börn.

Við vörum við tísku, sem rutt hefur sér til rúms hér á landi, að klæða litlar stúlkur í
magaboli, G-streng og annað slíkt.

Við fögnum framtaki SAFT (Samfélag, fjölskylda og tækni) sem nýlega gáfu út bækling
með leiðbeiningum um val á tölvuleikjum. Við bendum á að sömu vandvirkni er einnig
þörf við val á öðrum leikföngum. Forðumst að kaupa leikföng sem gera stríð og ofbeldi
aðlaðandi.
Hann fékk… en hún fékk…
Hvaða hlutverk ætlum við uppvaxandi kynslóð?

Tökum uppeldishlutverkið alvarlega.

Stöndum vörð um bernskuna og sakleysið.

 

TIL UMHUGSUNAR- KAUP HANDA BÖRNUM FYRIR JÓL.