Menn með Mönnum

Menn með mönnum

Eftir Guðrúnu Hannesdóttur

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. desember 2008

Eftir sviptingar síðustu vikna er mér farið sem fleirum að finnast raunveruleikinn hafa sogast burtu – sogast inn í einhverja óræða vídd og óvíst að hann sjáist meir.Því núlifandi Íslendingar, sem hafa lifað í besta hugsanlega heimi, eru sennilega síst til þess fallnir að opna augu sín fyrir því að þeir standa ekki lengur í skjóli heldur á berangri heimsins þar sem allra veðra er von. Til skamms tíma lifðum við í þeirri trú að gjöfult landið, nálægur faðmur frænda og vina og umfram allt sterk sjálfsmynd þjóðarinnar myndi ekki bregðast hvað sem á dyndi. Skilaði okkur enda allvel áleiðis lengi vel. Sjálfsmynd þjóðar þolir ef til vill ekki mjög nána skoðun en, þrátt fyrir heilaspuna og bláþræði á köflum, er hún lífsnauðsynlegt haldreipi. Án hennar er voðinn vís. Við fengum í góða vöggugjöf ást á landinu, stolt yfir vopnlausu þjóðfélagi jöfnuðar og heiðarlegrar vinnugleði. En fyrir nokkrum árum var hafist handa við að vinna hryðjuverk á téðri sjálfsmynd og þar voru að verki menn úr okkar eigin röðum. Fingraförin eru ekki ýkja mörg, menn eru fljótir að telja þau. Við vorum gerð samsek um innrás á blásaklausa þjóð hinum megin á hnettinum með hörmulegum afleiðingum, hjartað var sprengt í manni með hervirkjum á náttúru landsins og nú síðast erum við svipt sjálfsvirðingunni, svipt því að teljast sjálfbjarga og heiðvirð þjóð til jafns við aðrar þjóðir og jafnvel veitendur til þeirra sem minna mega sín. Ekkert í ytri aðstæðum þjóðarinnar kallaði á þessar aðgerðir og í engum þessara tilfella var þjóðin spurð hvort hún kysi sér hlutverk níðinga, umhverfisfanta og ójafnaðarmanna í fjármálum. En þetta er myndin sem við sjáum í speglinum í dag, þetta er skikkjan sem við drögnumst með
á herðunum út á berangurinn, út á meðal annarra þjóða.

Er þetta það yfirbragð sem við ætlum eftirkomandi Íslendingum að bera umókomna tíð? Seinþreytt til vandræða höfum við horft of lengi með vantrú og magnleysi á verk yfirvalda, glámskyggn með köflum á eigin auðlegð og gæfu eins og hvert annað heimaalið barn. Nú þegar augu okkar hafa opnast skulum við hafa manndóm til að hefjast handa við að leiðrétta þessa ámátlegu mynd, greina orsakir hennar og upphafsmenn. Stöndum við skuldbindingar okkar gagnvart öðrum, ekki síst komandi kynslóðum. Við erum gæfusmiðir okkar lands, hvert á sinn hátt.
Efniviðurinn er sem fyrr nógur og nærtækur.

Guðrún Hannesdóttir

 

Menn með mönnum eftir Guðrúnu Hannesdóttur

Hvað viljum við?

Bókmenntakynning MFÍK
13. desember 2008 

Félagið okkar var stofnað 1951 í Reykjavík í anda Alþjóðarsambands lýðræðissinnaðra kvenna – en A.L.K. varð til 1945 í París. Þar voru samankomnar konur frá 41 þjóðlandi sem allar höfðu verið í fangabúðum nasista í síðari heimstyrjöldinni. Í fangabúðunum strengdu þær þess heit
að leggja sitt að mörkum til heimsfriðarins, kæmust þær lifandi úr búðunum.

Kjarninn í stefnu og starfi M.F.Í.K. er friður.

  • Við viljum frið.
  • Við viljum afvopnun.
  • Við viljum að öll kjarnorkuvopn verði eyðilögð og bann lagt við framleiðslu efnavopna og sýklahernað.
  • Við viljum að konur sem karlar beiti samtakamætti sínum til að vinna að friði og stuðli að samstarfi allra þeir hópa og einstaklinga sem vilja taka upp baráttu fyrir friði og afvopnun.

Öll erum við ábyrg fyrir því hvort þjóðfélagið sem við tökum þátt í að móta stefnir að stríði eða friði. Gífurlegum fjármunum er varið til vígbúnaðar meðan stór hluti mannkyns sveltur. Vígbúnaðarkapphlaupið magnast þó þau vopn sem þegar eru til nægi margfaldlega
til að útrýma mannkyninu. Þúsundir vísindamanna nota hugvit sitt og krafta til að fullkomna vopn sem geta eytt öllu lífi á þessari jörð. Þetta er ógnun sem mannkynið stendur andspænis og hún er verk okkar mannanna sjálfra. Við verðum því sjálf að snúa þessari þróun við. Við verðum að taka höndum saman konur sem karlar og vinna markvisst að því að ókomnar kynslóðir fái að byggja þessa jörð. Okkur er ljós sá styrkur sem felst í samtökum fólks og því skorum við á alla að hugleiða þessi mál og taka þau til umræðu og umfjöllunar hvar og hvenær sem því verður viðkomið.

Margrét Pálína Guðmundsdóttir

Hvað viljum við

Að fá að vera í friði

Hugleiðingar um Astrid Lindgren, túlkun barna á friði og jólagjafakaup
14. nóvember 2007

Hvað segir gjöfin þín?
RATATATATA. „Mamma ðú er dauj“. „Jæja, ljósið mitt. Mér sýnist pabbi þinn
vera með lífsmarki ennþá. Hana, vittu hvort þú getir ekki gengið frá honum.“
Framundan eru jólin með öllu tilheyrandi og vafalaust margir farnir að huga að
jólagjafakaupum. Það má velta því fyrir sér hversu margar plastvélbyssur,
harðplastskriðdrekar, að ógleymdum ofbeldisfullum tölvuleikjum, munu rata í pakka litlu
sakleysingjanna okkar þetta árið. Mikilvægt er að foreldrar og aðrir spyrji sig að því hvaða áhrif þess
konar gjafir hafi á börn og hvaða og hverra gildismat þær endurspegla.

Aldrei ofbeldi
Árið 1978 var Astrid Lindgren veitt Friðarverðlaun þýskra bókaútgefenda á hinni árlegu
bókamessu í Frankfurt. Við verðlaunaafhendinguna flutti hún ræðu sem hún kallaði „Aldrei ofbeldi.“ Í
ræðu sinni veltir Lindgren því fyrir sér hvort einhver smíðagalli reynist á mannkyninu þar sem það þurfi
stöðugt að grípa til vopna eins og linnulaus stríð séu til vitnis um. Hún spyr einnig hvort ekki sé von til
þess að mannfólkið geti breytt sér áður en það verður um seinan. Hennar skoðun og niðurstaða er sú
að vissulega sé hægt að breyta til og nauðsynlegt sé að beina sjónum að undirstöðunni, að börnunum,
því svo læri þau sem fyrir þeim er haft.

Að fá að vera í friði
Í október stóð yfir sýning á teikningum japanskra grunnskólabarna og íslenskra barna á leik- og
grunnskólaaldri í aðalsafni Borgarbókasafns í Grófarhúsi. Tilefnið var uppsetning friðarsúlu Yoko Ono í
Viðey og var þema myndanna að sjálfsögðu friður. Það var eftirtektarvert hvernig sum íslensku
leikskólabörnin túlkuðu þemað. Á meðan myndir eldri barnanna sýndu hið klassíska friðar
handaband ólíkra kynþátta og friðardúfur, sýndu myndir yngri barnanna frið og ró. Texti einnar
myndarinnar sagði til dæmis „Þarna er ég alein í friði“, texti annarrar myndar var „Friður er alein
kanína“. Sjálfsagt vegna þess að börnin þekktu ekki hugtakið stríð, lögðu þau ekki þá merkingu í orðið
frið að það væri andstæða við stríð. Í þeirra augum var friður ekki friðsamleg samskipti heldur það að
fá að vera í friði.

Okkar er valið
Túlkun leikskólabarnanna á friði ýtir stoðum undir þá sannfæringu Lindgren að hægt sé að
breyta til og hafa áhrif. Það er hægt að velja friðsamlegri leið en þá sem hingað til hefur verið
fylgt. Við getum haft áhrif, verið börnum okkar fyrirmynd, við getum unnið að friði og ró og
lagt okkar að mörkum til að hlúa að undirstöðunum, styrkja þær og móta. Leyfum börnum
okkar að vera í friði, í friðsamri veröld og í friði fyrir öllu því sem viðkemur stríði. Úrval af
leikföngum hefur sjálfsagt sjaldan verið meira á Íslandi.
Vöndum valið og gætum þess að jólagjöfin okkar hefur áhrif

Að fá að vera í friði

TIL UMHUGSUNAR: KAUP HANDA BÖRNUM FYRIR JÓL.

Menningar- og friðarsamtökin MFÍK skora á foreldra og forráðamenn, ömmur, afa,
frænkur og frændur og aðra þá sem kaupa gjafir handa börnum og ungmennum, að vera
meðvituð um að það er á ábyrgð fullorðinna hvernig heimur snýr að börnum. Börn eiga
að fá að vera börn.

Við vörum við tísku, sem rutt hefur sér til rúms hér á landi, að klæða litlar stúlkur í
magaboli, G-streng og annað slíkt.

Við fögnum framtaki SAFT (Samfélag, fjölskylda og tækni) sem nýlega gáfu út bækling
með leiðbeiningum um val á tölvuleikjum. Við bendum á að sömu vandvirkni er einnig
þörf við val á öðrum leikföngum. Forðumst að kaupa leikföng sem gera stríð og ofbeldi
aðlaðandi.
Hann fékk… en hún fékk…
Hvaða hlutverk ætlum við uppvaxandi kynslóð?

Tökum uppeldishlutverkið alvarlega.

Stöndum vörð um bernskuna og sakleysið.

 

TIL UMHUGSUNAR- KAUP HANDA BÖRNUM FYRIR JÓL.