Ályktun MFÍK um stríðið í Írak
júní 10, 2014 Færðu inn athugasemd
Opinn fundur haldinn á vegum Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna þriðjudaginn 14. október í MÍR-salnum, Vatnsstíg 10 sendir frá sér eftirfarandi yfirlýsingu: Árásarstríðið á Írak, sem átti að frelsa kúgaða þjóð og auka öryggi umheimsins, kostaði mörg þúsund óbreyttra borgara lífið. Þeir sem eftir lifa búa áfram við ógnaröld, stjórnleysi og fátækt og öryggi í heiminum er á undanhaldi. Engin leið er að réttlæta stuðning ríkisstjórnar Davíðs Oddsonar og auðsveipni Halldórs Ásgrímssonar við forsprakka þessa feigðarflans. Undanlátssemi vestrænna þjóða við ríkisstjórn Ísraels hefur orðið henni hvatning til síendurtekinna níðingsverka gegn palestínsku þjóðinni sem aftur kalla fram æ örvæntingarfyllri viðbrögð hennar. Við slíkar aðstæður á síst af öllu við að lýsa yfir „skilningi“ á „óþolinmæði“ stríðsglæpamannsins Ariels Sharons. Fundurinn fordæmir stefnu ríkistjórnar Íslands í málefnum Miðausturlanda. Við krefjumst þess að ríkisstjórn Íslands láti af stuðningi við árásar- og útþenslustefnu Ísraela og hætti að skera sig þannig úr meirihluta ríkja heims sem opinberlega hafa hafnað þessari ofbeldisstefnu.